Íslenskt apótek tekur þátt í að svíkja fé út úr auðtrúa fólki.

Það er nú ekki allt jafn gagnlegt sem fæst í apótekunum.

Mig hefur lengi langað til að skrifa um hómópatíuvörurnar sem ég sé að a.m.k. eitt af apótekunum er með mikið úrval af í sérstökum rekka. Trúin á það á rætur aftur í 18. öld og það er efni í heila bók hvernig sú vitleysa varð til og þróaðist í eina arðbærustu heilsusvikaframleiðslu sem til er.

En nú finnst mér ástæða til að skrifa lítinn pistil um aðra heilsusvikavöru því skrumið kringum hana finnst mér yfirgengilegt og ég er að sjá sjúklinga sem hafa eytt af sínum takmörkuðu fjárráðum í þessa vitleysu.

Í einni af stóru lyfsölukeðjunum hefur um hríð verið til sölu vara sem auglýst er með fjölmörgum áberandi stöndum og plaggötum í búðum keðjunnar. Armbönd úr mjúku plasti sem á er lítill skjöldur með hologram-mynd og haldið er fram að innihaldi einhvers konar jónir sem eigi að stuðla að ýmsum jákvæðum eiginleikum hjá berandanum. Það er meira að segja gefið í skyn að því að myndin á skildinum sé á einhvern hátt heilnæm!

armband_1.jpg Þarna er eins og venjulega þegar um svona heilsusvikavöru er að ræða, sett fram ýmis konar listilega orðuð hálf-loforð og óstuddar yfirlýsingar um mögueg áhrif og um meinta þátttöku einhvers konar rannsóknarstofu í "vottun" vörunnar.

Gjarnan eru notuð þekkt vörumerki til þess að auka trúverugleikan. Á heimasíðu framleiðanda  vörunnar sér maður að þeir nota líka Rauða krossinn og "Support our troops" vörumerkjunum í Ameríkunni.

Í íslenska apótekinu sá ég um helgina tvo risastóra standa með bleikum pakningum og bleikum armböndum þar sem tengingin við brjóstakrabbameinssöfnunina er notuð til þess að plata fólk til að kaupa.

Svo borga þeir íþróttamönnum (sem gera jú hvað sem er til að bæta árangurinn, ekki að tala um ef þeir fá borgað fyrir það) fyrir að láta mynda sig með draslið.

 

armband_2.jpgSvona fjárplógsstarfsemi virðist afar erfitt að stöðva því fólk er jú alltaf að leita að auðveldari lausnum og yfirvöld skortir dug til þess að standa á móti gerfirökum og fullyrðingum sölufólksins, sem jafnvel sjálft trúir á vöruna á stundum.

Fyrir mér er þetta jafn sviksamlegt og Nígeríubréfin frægu og ég væri ekki hissa þó sölumennirnir hafi enn meira upp úr krafsinu en þeir afrísku.

Heilsusvikavara af þessu tagi er venjulega framleidd í Kína eða öðru austrænu landi. Framleiðslustaðurinn er auðvitað óþekktur og vel varinn. Enginn veit hvað sett er í þetta og því auðvitað haldið fram að það sé iðnaðarleyndarmál. Hvað það er þessar neikvæðu jónir sem haldið er fram að sé virka efnið í þessu er ekki gott að segja. Sennilega ekki neitt.
Kostnaðurin við framleiðsluna er  án efa ekki margar krónur stykkið en hér er þetta selt á 1900 kr eða 2500 kr eftir því hversu "flott" tegund það er.

Það er sök sér þegar fólk er að koma upp um trúgirnina með því að borga fyrir þetta og bera á sér en sárara en tárum taki að sjá þegar alvarlega veikir sjúklingar eru að eyða peningunum í svona  vitleysu.

Ef það vill styðja söfnunina fyrir rannsóknum á brjóstakrabba þá eru til leiðir til þess án þess að meirihluti peninganna fari í vasa einhverra "snákaolíukaupmanna".

Það eina sem hægt er að segja að sé ekki neikvætt með þetta er að það er vonandi ekki skaðlegt heilsunni, þó er aldrei að vita með mýkingarefnin í plastinu? Mörg slík eru ekki par holl, sérstaklega fyrir lítil börn.

Ég vona að íslensku umboðsaðilarnir komi nú fram og mótmæli hér undir nafni svo við komumst að því hverjir eru að féfletta fólk með aðstoð stórrar lyfjaverslanakeðju sem ætti að vita betur þar sem þar á að vera menntað fólk innanbúðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband