Færsluflokkur: Bloggar

Eru þeir gengnir af (kirkju)göflunum...

skalholt.jpg... var það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las þetta.

Að byggja gervi-fornminjar hefur mér alltaf fundist frekar vafasöm iðja.

Ojæja... það má svo sem nota slíkt til þess að sýna á safni hverngi farið var að í gamla daga, eða hvernig aðbúnaður fólks var. Slíkt er eins og leiktjöld, eftirlíking af einhverjum horfnum raunveruleika. Á vel við á stað eins og Árbæjarsafni.

En að byggja aðra(!!!) kirkju á þessum fallega og stílhreina stað. Til hvers?

Til að hafa ofan af fyrir ferðamönnum? Vantar svona leikmynd fyrir einhvers konar miðaldasýningar?

Getur hún þá ekki verið einhvers staðar annars staðar? Ég botna ekkert í þessu


mbl.is Miðaldakirkja rísi í Skálholti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er erfitt að spá... sérstaklega um framtíðina.

Er haft eftir Robert Storm-Pedersen heitnum.

Sérfræðikunnátta í kynlífi Murtunnar er auðvitað grundvallarþekking ef spá skalÖssur  um framtíðarhorfur Evrunnar og Ísland á einmitt heimsins færasta spámann með þessa gáfu.

En það er annar leyndardómur að baki svona dásamlegri spádómsgáfu. Ráðgjafarnir!

 Þeir trúa svo sannarlega á framtíðina í fyrirheitna sambandinu því hún veitir þeim ómælda vinnu þessa dagana.

Spámaðurinn okkar á marga ráðgjafa. Þar fer þó einn fremstur meðal jafningja. 

Síðastliðinn vetur sat ég einu sinni sem oftar og beið í hægindastól í einni af fyrirmennastofum Kastrupflugvallar. Þar sem ég sat bak í bak við þá, komst ég ekki hjá því að heyra á tal Spámannsins og aðalráðgjafa hans drykklanga stund. Ráðgjafinn las úr prótókollum og skjölum og sagði Spámanninum allt um það hvað sneri upp og hvað niður á heiminum og hverjum augum best væri að líta á það alltsaman.

Hvort Spámaðurinn saug í sig mikið af ráðgjöfinni var ekki auðgreint en allmikið saug hann í sig af neftóbaki og fletti bók um laxveiði. 

ÖssurCo_DieZeit

Ráðgjafarnir fá áreiðanlega góða umbun þegar erfiði þeirra ber árangur og við stígum inn um töfraspegilinn, inn í fyrirheitna sambandið því þar bíða enn meiri verkefni við reglugerðir og ráðsmennsku allskonar.

Hvort það megi halla sér á fundum í Evrópuráðinu veit ég ekki en mér skilst að þar megi sjúga í sig tóbak, bara ef það er þurrt. Sums staðar má það jafnvel vera blautt en um það allt má lesa hér í hinu aðgengilega lagasafni fyrirheitna sambandsins.  Í þessum hluta þess hefur reyndar gleymst að minnast sérstaklega á neftóbak en úr því ætlar Spámaðurinn að bæta þegar hann hefur tekið við verðlaununum fyrir að vera sá eini sem trúði á Evruna áður en Ísland gekk inn í fyrirheitna sambandið. Ráðgjafarnir fá svo að íslenska þetta allt saman þegar þar að kemur.

 

 


mbl.is Evran sterkari fyrir vikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt apótek tekur þátt í að svíkja fé út úr auðtrúa fólki.

Það er nú ekki allt jafn gagnlegt sem fæst í apótekunum.

Mig hefur lengi langað til að skrifa um hómópatíuvörurnar sem ég sé að a.m.k. eitt af apótekunum er með mikið úrval af í sérstökum rekka. Trúin á það á rætur aftur í 18. öld og það er efni í heila bók hvernig sú vitleysa varð til og þróaðist í eina arðbærustu heilsusvikaframleiðslu sem til er.

En nú finnst mér ástæða til að skrifa lítinn pistil um aðra heilsusvikavöru því skrumið kringum hana finnst mér yfirgengilegt og ég er að sjá sjúklinga sem hafa eytt af sínum takmörkuðu fjárráðum í þessa vitleysu.

Í einni af stóru lyfsölukeðjunum hefur um hríð verið til sölu vara sem auglýst er með fjölmörgum áberandi stöndum og plaggötum í búðum keðjunnar. Armbönd úr mjúku plasti sem á er lítill skjöldur með hologram-mynd og haldið er fram að innihaldi einhvers konar jónir sem eigi að stuðla að ýmsum jákvæðum eiginleikum hjá berandanum. Það er meira að segja gefið í skyn að því að myndin á skildinum sé á einhvern hátt heilnæm!

armband_1.jpg Þarna er eins og venjulega þegar um svona heilsusvikavöru er að ræða, sett fram ýmis konar listilega orðuð hálf-loforð og óstuddar yfirlýsingar um mögueg áhrif og um meinta þátttöku einhvers konar rannsóknarstofu í "vottun" vörunnar.

Gjarnan eru notuð þekkt vörumerki til þess að auka trúverugleikan. Á heimasíðu framleiðanda  vörunnar sér maður að þeir nota líka Rauða krossinn og "Support our troops" vörumerkjunum í Ameríkunni.

Í íslenska apótekinu sá ég um helgina tvo risastóra standa með bleikum pakningum og bleikum armböndum þar sem tengingin við brjóstakrabbameinssöfnunina er notuð til þess að plata fólk til að kaupa.

Svo borga þeir íþróttamönnum (sem gera jú hvað sem er til að bæta árangurinn, ekki að tala um ef þeir fá borgað fyrir það) fyrir að láta mynda sig með draslið.

 

armband_2.jpgSvona fjárplógsstarfsemi virðist afar erfitt að stöðva því fólk er jú alltaf að leita að auðveldari lausnum og yfirvöld skortir dug til þess að standa á móti gerfirökum og fullyrðingum sölufólksins, sem jafnvel sjálft trúir á vöruna á stundum.

Fyrir mér er þetta jafn sviksamlegt og Nígeríubréfin frægu og ég væri ekki hissa þó sölumennirnir hafi enn meira upp úr krafsinu en þeir afrísku.

Heilsusvikavara af þessu tagi er venjulega framleidd í Kína eða öðru austrænu landi. Framleiðslustaðurinn er auðvitað óþekktur og vel varinn. Enginn veit hvað sett er í þetta og því auðvitað haldið fram að það sé iðnaðarleyndarmál. Hvað það er þessar neikvæðu jónir sem haldið er fram að sé virka efnið í þessu er ekki gott að segja. Sennilega ekki neitt.
Kostnaðurin við framleiðsluna er  án efa ekki margar krónur stykkið en hér er þetta selt á 1900 kr eða 2500 kr eftir því hversu "flott" tegund það er.

Það er sök sér þegar fólk er að koma upp um trúgirnina með því að borga fyrir þetta og bera á sér en sárara en tárum taki að sjá þegar alvarlega veikir sjúklingar eru að eyða peningunum í svona  vitleysu.

Ef það vill styðja söfnunina fyrir rannsóknum á brjóstakrabba þá eru til leiðir til þess án þess að meirihluti peninganna fari í vasa einhverra "snákaolíukaupmanna".

Það eina sem hægt er að segja að sé ekki neikvætt með þetta er að það er vonandi ekki skaðlegt heilsunni, þó er aldrei að vita með mýkingarefnin í plastinu? Mörg slík eru ekki par holl, sérstaklega fyrir lítil börn.

Ég vona að íslensku umboðsaðilarnir komi nú fram og mótmæli hér undir nafni svo við komumst að því hverjir eru að féfletta fólk með aðstoð stórrar lyfjaverslanakeðju sem ætti að vita betur þar sem þar á að vera menntað fólk innanbúðar.


Íslenskukunnáttu mbl.is-ritara fer ört hrakandi.

Ég hélt að eftirspurn væri "EFTIR" einhverju en ekki "Á" eitthvað??? Og svo er nú yfirleitt betra að "HVETJA" til einhvers (með H-i) en að "KVEÐJA" fólk til einhvers eins og haldið er fram í þessum lágkúrulega fréttastúf.

Hvað í skrambanum er í gangi? Er enginn eftir á þessum arma fjölmiðli sem kann grundvallaratriði íslensku?

Svo er ekki nóg með að okkar ástkæra móðurmáli sé nauðgað í sífellu. Það er líka verið að rembast við að skíra hitt og þetta upp á nýtt og það ekki gæfulega. Sem dæmi þá hefur einhver gáfnatýran þarna ákveðið að Chile skuli héreftir heita SÍLE!
Hvað næst? Verður New York stafað "NJÚJORRK" í framtíðinni? Þá er nú betra að kalla það Nýja Jórvík eins og stundum hefur sést á prenti og fellur ekki illa að íslenskri málhefð.


mbl.is Mikil eftirspurn á flugi til Eyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harpan, gluggar og skítur

Eitthvað virðist fólki niðri fyrir yfir birtumagnsskorti í Hörpuhjúpnum. Við hverju býst fólk, upplýstu gróðurhúsi? Eða diskóstemningu?  En ég hef eiginlega mestar áhyggjur af því að þetta verði enn ein ástæðan fyrir því að aldrei nokkurn tíma fáist peningar til þess að þvo gluggana á byggingum LSH. Það hefur nefnilega ALDREI verið gert.  Það er nánast óþekkt í okkar heimshluta að gluggar séu þvegnir á opinberum spítalabyggingum. Þar þarf nefnilega alltaf að spara.

Einu sinni heyrði ég sögu sem ég veit að er sönn. Hún sagði frá breskum skurðlækni sem lá banaleguna á sínum eigin spítala. Hann hafði fengið eitthvað krabbameinsógeð allt of snemma. Hans hinsta ósk var (haldið ykkur fast...) að gluggarnir yrðu þvegnir. Það var víst gert... einu sinni.


mbl.is Glerhjúpur Hörpu tendraður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósæmileg útstilling og hlægilegt verslunarnafn

Þessi risavaxna gluggaútstilling á fjölförnu götuhorni er ekkert annað en ósómi sem særir siðferðisvitund eðlilegs fólks. Ósæmileg auglýsing með vísun í hrátt ofbeldi

Hvernig má skilja öðruvísi en sem ofbeldishvatningu mynd af steraþrýstnu vöðvatrölli sem reiðir hnefann til höggs yfir liggjandi andstæðingi og yfir stendur skýrum stöfum: "Beating up people is a positive thing".

Mann undrar hvaða lágkúrstigi hin firrta ofbeldisdýrkun undir yfirskyni íþrótta hefur náð. Þeir sem standa að þessu finnst þetta kannski sniðugt og halda að þar sem um tilvitnun sé að ræða þá réttlæti það verkið. Síður en svo. Orðin "Beating up people" geta ekki þýtt neitt jákvætt. Þau þýða ekkert annað en " Að lemja fólk" hvernig sem því er snúið eða sett í mismunandi samhengi. Slíkt er í alla staði ólöglegt, líka í íþróttasamhengi. Afstaða mannanna á myndinni styrkir vísun í ólöglegt ofbeldi með því að sýna ótvírætt að þar ræðst einn á annan.

Hægt er að velta fyrir sér samlíkingum við annað ólöglegt athæfi á borð við hraðaakstur til dæmis. Hvernig yrði því tekið af yfirvöldum ef bílaumboð auglýsti:

"Að aka á 150 km/klst er jákvætt"

eða ef söluaðilar bruggáhalda auglýstu:

"Að drekka sig fullann er jákvætt"

Hnefahögg er hættuleg árás eins og dæmin sanna. Hér á landi hafa orðið dauðsföll af völdum slíks. Jafnvel í hinni nú svo dýrkuðu box-"íþrótt" lá við dauðsfalli af heilablæðingu hér á landi árið 2003. Sá sem fyrir því varð stærir sig af því að hafa sloppið lifandi og "þjálfar" aðra í þessu athæfi (Séð og Heyrt 2005 eða 2006(?) undir fyrirsögninni: "Gangandi Kraftaverk! - Ari Þór Ársælsson lifði dauðahöggið af")

Nafn verslunarinnar er ekki síður vísun í ólöglegt ofbeldi, reyndar grátbroslega neyðarleg. "Choke" þýðir almennt að kæfa eða kyrkja og slíkt er bannað með lögum. Nú halda kannski aðstandendur verslunarinnar að það þýði eitthvað fínt þegar um samhengi við íþróttir sé að ræða en það er síður en svo. Svo hlægilega vill til að þeir hafa valið orð sem í íþróttasamhengi á við það þegar sigurstranglegur keppandi missir hrapalega marks, tapar stórt eða gerir slæm mistök í vinnandi stöðu sem koma í veg fyrir sigur. "He chokes" - "Hann kafnar". Þessu má auðveldlega fletta upp á Wikipedia til dæmis : "In sports, a "choke" is the failure of an athlete or an athletic team to win a game or tournament when the player or team had been strongly favored to win or had squandered a large lead in the late stages of the event. " Ekki alveg það sem þeir hugsuðu sér geri ég ráð fyrir.

Ég tók eftir þessari "auglýsingu" fyrir um það bil viku og skrifaði þá fréttastofu visir.is og lagði til að þeir fjölluðu um það og útskýrði ofangreind sjonarmið. Þeir hafa ekki haft fyrir því að ansa mér einu sinni. Ég skora nú á blaðamenn Mbl.is að fylgja málinu eftir og fá fram meiri umræðu um mörkin milli ofbeldis og íþrótta sem eru að verða skuggalega óljós. Sjálfur hef ég hugsað mér að reyna að finna einhvern flöt á því að kæra þetta sem ósæmilega auglýsingu sem særir siðferðisvitund fólks en slíkt skilst mér að sé óleyfilegt.


mbl.is Ekki stuðlað að ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband