30.7.2011 | 15:41
Ósæmileg útstilling og hlægilegt verslunarnafn
Þessi risavaxna gluggaútstilling á fjölförnu götuhorni er ekkert annað en ósómi sem særir siðferðisvitund eðlilegs fólks.
Hvernig má skilja öðruvísi en sem ofbeldishvatningu mynd af steraþrýstnu vöðvatrölli sem reiðir hnefann til höggs yfir liggjandi andstæðingi og yfir stendur skýrum stöfum: "Beating up people is a positive thing".
Mann undrar hvaða lágkúrstigi hin firrta ofbeldisdýrkun undir yfirskyni íþrótta hefur náð. Þeir sem standa að þessu finnst þetta kannski sniðugt og halda að þar sem um tilvitnun sé að ræða þá réttlæti það verkið. Síður en svo. Orðin "Beating up people" geta ekki þýtt neitt jákvætt. Þau þýða ekkert annað en " Að lemja fólk" hvernig sem því er snúið eða sett í mismunandi samhengi. Slíkt er í alla staði ólöglegt, líka í íþróttasamhengi. Afstaða mannanna á myndinni styrkir vísun í ólöglegt ofbeldi með því að sýna ótvírætt að þar ræðst einn á annan.
Hægt er að velta fyrir sér samlíkingum við annað ólöglegt athæfi á borð við hraðaakstur til dæmis. Hvernig yrði því tekið af yfirvöldum ef bílaumboð auglýsti:
"Að aka á 150 km/klst er jákvætt"
eða ef söluaðilar bruggáhalda auglýstu:
"Að drekka sig fullann er jákvætt"
Hnefahögg er hættuleg árás eins og dæmin sanna. Hér á landi hafa orðið dauðsföll af völdum slíks. Jafnvel í hinni nú svo dýrkuðu box-"íþrótt" lá við dauðsfalli af heilablæðingu hér á landi árið 2003. Sá sem fyrir því varð stærir sig af því að hafa sloppið lifandi og "þjálfar" aðra í þessu athæfi (Séð og Heyrt 2005 eða 2006(?) undir fyrirsögninni: "Gangandi Kraftaverk! - Ari Þór Ársælsson lifði dauðahöggið af")
Nafn verslunarinnar er ekki síður vísun í ólöglegt ofbeldi, reyndar grátbroslega neyðarleg. "Choke" þýðir almennt að kæfa eða kyrkja og slíkt er bannað með lögum. Nú halda kannski aðstandendur verslunarinnar að það þýði eitthvað fínt þegar um samhengi við íþróttir sé að ræða en það er síður en svo. Svo hlægilega vill til að þeir hafa valið orð sem í íþróttasamhengi á við það þegar sigurstranglegur keppandi missir hrapalega marks, tapar stórt eða gerir slæm mistök í vinnandi stöðu sem koma í veg fyrir sigur. "He chokes" - "Hann kafnar". Þessu má auðveldlega fletta upp á Wikipedia til dæmis : "In sports, a "choke" is the failure of an athlete or an athletic team to win a game or tournament when the player or team had been strongly favored to win or had squandered a large lead in the late stages of the event. " Ekki alveg það sem þeir hugsuðu sér geri ég ráð fyrir.
Ég tók eftir þessari "auglýsingu" fyrir um það bil viku og skrifaði þá fréttastofu visir.is og lagði til að þeir fjölluðu um það og útskýrði ofangreind sjonarmið. Þeir hafa ekki haft fyrir því að ansa mér einu sinni. Ég skora nú á blaðamenn Mbl.is að fylgja málinu eftir og fá fram meiri umræðu um mörkin milli ofbeldis og íþrótta sem eru að verða skuggalega óljós. Sjálfur hef ég hugsað mér að reyna að finna einhvern flöt á því að kæra þetta sem ósæmilega auglýsingu sem særir siðferðisvitund fólks en slíkt skilst mér að sé óleyfilegt.
Ekki stuðlað að ofbeldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst það nú ekki til fyrirmyndar hjá þér að halda því fram að maðurinn sé á sterum.Hvaða sönnur hefur þú fyrir því.Ekki lærðirðu það í læknisfræði að allir sem eru í góðu formi eða "massaðir" séu á sterum. Svona vitleysis tal er ein af ástæðunum fyrir því að ungir menn byrja að nota stera. Þetta er ófaglegt og til skammar að læknir skuli láta svona óhróður og vitleysu út úr sér.
Steinar H. Björnsson (IP-tala skráð) 30.7.2011 kl. 16:55
Það er langt seilst þegar það er talin íþrótt að berja liggjandi mann.
Hingað til hafa slíkir menn verið flokkaðir sem heiglar og aumingjar!
Gunnar Heiðarsson, 30.7.2011 kl. 17:07
Ekki hef ég haldið fram að maðurinn sé "á sterum". Hann lítur bara þannig út. Það er afskaplega erfitt að ná svona útliti nema með utanaðkomandi hjálp þó það sé hægt ef nóg er af eigin steraframleiðslu.
En af hverju hengir þú þig á þetta? Það er algert aukaatriði og ekki sérlega málefnalegt að þrasa um þetta. Ég svara bara þessari óþörfu "ad hominem" árás af því að þú skrifar undir nafni.
Segðu okkur frekar hvort þú lítir á þessa "auglýsingu" sem sæmilega frekar heldur en að ráðast á mig persónulega með svona vitleysu.
Björn Geir Leifsson, 30.7.2011 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.